Réttindi brotaþola hafa verið mikið í umræðunni og þá einkum hvernig unnt er að bæta stöðu og réttindi þeirra. Miklar umbætur hafa átt sér stað í þágu brotaþola og vega þar þungt ákvæði laga nr. 61/2022 um breytingu á lögum um meðferð sakamála, nr. 88/2008 (bætt réttarstaða brotaþola, fatlaðs fólks og aðstandenda). Með lögunum var réttarstaða brotaþola bætt til muna en skilyrðin fyrir því að brotaþoli fái tilnefndan eða skipaðan réttargæslumann sér til aðstoðar eru óbreytt þrátt fyrir aukið vægi réttargæslumanna. Lögin setja því áfram sömu skilyrði fyrir skipun réttargæslumanna. Þörf er á að endurskoða þessi skilyrði og þá einkum hvað varðar þolendur ofbeldis í nánum samböndum.
Fjallað verður um hverjir falla undir hugtakið brotaþoli og stöðu og hlutverk réttargæslumanns. Ekki verður farið sérstaklega yfir réttindi brotaþola að öðru leyti en hvað varðar rétt þeirra til réttargæslumanns. Jafnframt verður aðeins fjallað um hlutverk réttargæslumanns að því leyti sem nauðsynlegt er til að varpa ljósi á mikilvægi réttar brotaþola til þess að njóta liðsinnis réttargæslumanns. Ekki er því um tæmandi talningu að ræða á réttindum brotaþola eða hlutverki og réttindum réttargæslumanns þar sem það er efni í aðra og umfangsmeiri grein. Áherslan er því lögð á að svara því hvaða skilyrði brotaþolar þurfa að uppfylla til að eiga rétt á liðsinni réttargæslumanns.
Varpað verður ljósi á það hverjir geta fengið tilnefndan eða skipaðan réttargæslumann því að ekki eiga allir brotaþolar möguleika eða rétt á að fá réttargæslumann til að gæta hagsmuna sinna. Farið verður yfir þau skilyrði sem brotaþolar þurfa að uppfylla til að fá réttargæslumann, en skilyrðin eru mismunandi eftir því hvers eðlis brot er og geta einnig verið mismunandi eftir aldri brotaþola. Fjallað verður um þau skilyrði sem sett eru í lögum varðandi tilnefningu og skipun réttargæslumanns og svo dómaframkvæmd hvað þetta varðar til að varpa ljósi á það hvernig dómstólar hafa túlkað skilyrði laganna fyrir þessum réttindum brotaþola. Niðurstöður verða því næst dregnar saman og lagðar fram tillögur að úrbótum í þágu brotaþola og þá einkum þolenda ofbeldis í nánum samböndum.