You are currently viewing Manndráp af ásetningi : um ýmis atriði sem áhrif hafa á þyngd refsinga fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

Manndráp af ásetningi : um ýmis atriði sem áhrif hafa á þyngd refsinga fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940

Þessi ritgerð fjallar um manndráp af ásetningi, þ.e. brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og þá sérstaklega ýmis atriði sem virðast hafa áhrif á þyngd refsinga. Flest þessara atriða eru ekki nefnd í VIII. kafla laganna, en sá kafli fjallar um atriði sem áhrif hafa á refsihæðina.

Fjallað er almennt um manndráp og 211. gr. hegningarlaganna. Síðan er gerð úttekt á þeim 35 manndrápsmálum sem farið hafa fyrir Hæstarétt, þar sem brotamaðurinn er sakfelldur, á tímabilinu frá 1955 – 2005. Til að mynda er farið í dreifingu refsiákvarðana og refsiákvarðanir héraðsdóms og Hæstaréttar í þessum málum bornar saman og litið til þess hvaða ástæður liggja að baki þess að Hæstiréttur eykur við eða lækkar refsiákvarðanir héraðsdóms. Einnig er gerð grein fyrir ýmsum atriðum varðandi brotamennina, það er hverjir þeir voru s.s. konur eða karlar, og á hvaða aldri; og þá hvaða áhrif kyn og aldur brotamanna hefur á þyngd refsinga. Kynferði brotamanna virðist ekki hafa afgerandi áhrif á refsingar, en aldur virðist aftur á móti hafa þó nokkur áhrif þar á. Einnig er fjallað um brotaþola og tengsl þeirra við brotamennina og þá sérstaklega hvað áhrif tengsl brotamanna og brotaþola hafa á þyngd refsinga. Svo virðist vera að brotamenn fái lægri refsingu eftir því sem kynni þeirra við brotaþola eru meiri. Einnig er kannað hvaða áhrif verknaðaraðferðir manndrápa hafa á þyngd refsinga, en svo virðist vera að eftir því sem verknaðaraðferð er hrottafengnari, því þyngri er refsing brotamannsins.