You are currently viewing Réttindi forsjárlauss foreldris: Veldur afsal á forsjá til barnaverndarþjónustu réttindamissi forsjárlauss foreldris?

Réttindi forsjárlauss foreldris: Veldur afsal á forsjá til barnaverndarþjónustu réttindamissi forsjárlauss foreldris?

Foreldrajafnrétti hefur verið greinarhöfundum ofarlega í huga í gegnum tíðina. Mikið hefur verið rætt um foreldrajafnrétti og þá almennt um hversu mjög hallar á feður. Höfund­ar hafa í störfum sínum séð að lögin gera ekki greinarmun á réttindum foreldra eftir kyni, að öðru leyti en því að móðir, sem elur barn, fer ein með forsjá við fæðingu þess ef foreldrar eru ekki í hjúskap eða skráðri sambúð. Það er hins vegar talsverður munur á réttindum foreldra eftir því hvort þeir fara með forsjá barns síns eða ekki.

Kveikjan að þessari grein er mál forsjárlauss foreldris er höfundar aðstoðuðu við að leita réttar síns gagnvart barni sínu eftir að hitt foreldrið, sem fór eitt með forsjá barnsins, afsalaði forsjánni til barnaverndar­nefnd­ar (nú barnaverndarþjónustu). Um er að ræða talsverða þrautargöngu sem tók nokkur ár í kerfinu og var sláandi hversu lítil réttindi forsjárlausa foreldrið hafði í raun. Það stóð uppi svo til réttlaust gagnvart barni sínu af þeirri ást­æðu einni að forsjárforeldrið hafði afsalað forsjá barnsins til barnaverndar­. Þá tók málið talsvert langan tíma fyrir dómstólum og voru ýmsar hindranir í veginum sem gerðu foreldrinu erfitt um vik við að fá úrlausn sinna mála.

Í greininni er leitast við að svara því hver réttindi forsjárlauss foreldris eru við afsal forsjárforeldris á forsjá og fara yfir helstu lagaákvæði og hugtök sem skipta máli varðandi réttindi barna og foreldra við slíkar aðstæður til að varpa ljósi á stöðuna samkvæmt lögum. Þá verður fjallað um máls­með­ferð í málum tveggja forsjárlausra foreldra til að varpa ljósi á réttarstöðu þeirra og meðferð mála þeirra fyrir dómstólum og þá hvernig staða forsjár­lausra foreldra er í raun við þessar aðstæður. Þess má geta að um er að ræða einu málin sem finna má í dómasafni þar sem reynir á réttarstöðu forsjárlausra foreldra í kjölfar afsals forsjárforeldris á forsjá. Efni greinarinnar verður svo dregið saman og settar fram niður­stöður og tillögur að úrbótum.


Sjá meira